Giovanna Spano, íslensk barnsmóðir írasks flóttamanns sem er í felum í Danmörku, segir þær aðstæður sem hann hafi búið við sem flóttamaður hafa átt stóran þátt í því að upp úr sambandi þeirra slitnaði og hún flutti með son þeirra, sem þá var tveggja ára, til Íslands fyrir tveimur árum.
„Ég var eiginlega bara búin að gefast upp á öllu þessu álagi. Aðstæður voru svo erfiðar og okkur var gert allt svo erfitt. Við vorum búin að reyna allt en það vildi enginn hjálpa okkur" sagði hún er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í morgun.
Giovanna segist hafa talað við barnsföður sinn Ali Nayef í síma í morgun en að hvorki hún né sonur þeirra hafi séð hann í tæp tvö ár. Hann hafi sagt henni að tilviljun hafi ráðið því að hann var ekki í Brorson kirkjunni á Norðurbú er lögregla réðst í nótt gegn flóttamönnum, sem þar höfuðst við.
Hún segir Nayef hafa búið í sjö til átta ár í Danmörku. Hann hafi verið skráður sem flóttamaður í landinu og farið reglulega og látið skrásetja sig er þau bjuggu saman. Hann hafi hins vegar ekki mátt vinna og það hafi gert þeim mjög erfitt fyrir. Auk þess hafi hann búið við stöðugan ótta við að verða rekinn úr landi.
Sjálf segist Giovanna hafa kynnst Nayef skömmu eftir að hún flutti til Danmerkur er hún var sextán ára gömul. Þau hafi gift sig að íslömskum sið er hún var sautján ára og verið skráð í samband af dönskum yfirvöldum.
Nayef hafi hins vegar ekki getað fengið landvistarleyfi á grundvelli hjónbands þeirra þar sem hún hafi ekki uppfyllt kröfu um að fólk þurfi að vera orðið 24 ára til að fá landvistarleyfi fyrir erlendan maka sinn.
Giovanna segir þau Nayef bæði hafa reynt að fá dvalar- og atvinnuleyfi fyrir hann í Danmörku og á Íslandi en að það hafi ekki gengið. Hún viti þó ekki hvað hann hafi gert til að reyna að fá slíkt í gegn frá þeim tíma. Hún viti hins vegar að fengi hann atvinnuleyfi hvort sem það væri hér eða þar myndi hann vinna eins og hestur og ekki kæra sig um að vera upp á aðra kominn.