Hörður Arnarson, forstjóri Sjóvár og fyrrverandi stjóri Marels, mun taka við forstjórastöðu Landsvirkjunar frá 1. janúar á næsta ári. Friðrik Sophusson lætur þá af starfi forstjóra, sem hann hefur gegnt í 11 ár.
Hörður segir í tilkynningu, að erfiðleikar á fjármálamörkuðum hafi gert Landsvirkjun erfitt fyrir en undirliggjandi rekstur þess sé traustur og því full ástæða til bjartsýni.
„Fyrirtækið hefur yfir að ráða einstakri þekkingu á sviði virkjana og orkumála. Það hefur mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi, ekki síst í því endurreisnarstarfi sem framundan er í atvinnulífinu," segir Hörður í tilkynningunni.
Hörður er 46 ára gamall og lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1986 og doktorsprófi frá DTU í Kaupmannahöfn 1990. Hann starfaði hjá Marel frá 1985 og þar af sem forstjóri fyrirtækisins í tíu ár frá 1999 til 2009. Frá því í maí síðastliðnum hefur Hörður gegnt starfi forstjóra Sjóvár og leitt endurskipulagningu félagsins en gert er ráð fyrir að því verkefni ljúki fyrir áramót.
Hörður er kvæntur Guðnýju Hallgrímsdóttur sagnfræðingi og eiga þau þrjú börn.