Jóhanna skrifar á vef Financial Times

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Eggert Jóhannesson

Grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, birtist nú rétt fyrir klukkan sjö á vef Financial Times. Er fyrirsögn hennar „Icelanders are angry but will make sacrifices“ eða „Íslendingar eru reiðir en munu færa fórnir.“ Í henni segir Jóhanna fá lönd í hinum þróaða heimi glíma við jafnmörg vandamál og Ísland gerir nú.

Í greininni hafnar Jóhanna ásökunum um að Íslendingar vilji kenna Bretum og Hollendingum um allt sem miður hefur farið í tengslum við Icesave-málið. Hún segir að þjóðin sé ósátt við að þurfa að bera ábyrgð innistæðum sem stofnað var til hjá einkareknum banka en þeir séu tilbúnir að færa fórnir til að tryggja eðlileg samskipti og viðskipti við þjóðir heims.

Þá gagnrýnir hún bresk stjórnvöld fyrir að hafa beitt hryðjuverkalögunum á Ísland í kjölfar efnahagshrunið. Furðar hún sig á að ekki hafi verið gefnar fullnægjandi skýringar á því þrátt fyrir gagnrýna skýrslu fjármálanefndar neðri deildar breska þingsins.

Einnig segir hún að erfiðlega hafi gengið að sannfæra Alþingi um að fullgilda Icesave samkomulagið. Segir hún að umfjöllun Financial Times um meintan þrýsting hollenskra yfirvalda á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn varðandi lánveitingar til Íslendinga hafa haft áhrif á það.

Jóhanna skrifar að hún voni að Bretar og Hollendingar geri sér grein fyrir hversu mikil áhrif þarlend stjórnvöld geti haft á smáþjóð í kröggum. 

Grein Jóhönnu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert