Eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur mbl sjónvarpi.
Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra kallaði Einar K Guðfinnsson eina af helstu klappstýrum hrunsins á þingi í dag. Hann segir skiljanlegt að peningastefnunefnd gangi ekki lengra í að lækka vexti en hún geri með hér sé óvissa í efnahagsmálum.
Ráðherrann segir að það standi upp á þingheim að treysta stoðir efnahagslífsins og draga úr óvissunni með því að samþykkja Icesave-samkomulagið og leggja þannig grunn að efnahagslegum stöðugleika og hraðara vaxtalækkunarferli.
Árni Páll var að svara Einari K Guðfinnssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem sagði að heimili fólks hefðu lækkað um þriðjung í verði og ekki væri séð fyrir endann á þeirri lækkun. Verðbólga væri hér meiri ef ekki væri fyrir þessa lækkun. Heimilin væru að bera byrðarnar.
Einar K. Guðfinnsson sagði yfirlýsingu ráðherrans merkilega, um að það væri óvissa um alla grundvallarþætti í efnahagslífinu. Varla væri hægt að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar betur en þetta. Hann sagði þetta harðan áfellisdóm ráðherrans yfir ríkisstjórninni allri.
Árni Páll segir að fyrrverandi ríkisstjórn hafi kastað sprekum á eldinn sem leiddi þjóðina í þessar ógöngur. Það væri athyglisvert að eiga orðastað við þingmann sem væri ein af helstu klappstýrum hrunsins og hefði líkt og fyrri ríkisstjórn ekki reynt að hafa stjórn á útþenslu bankakerfisins og innistæðulausum útboðum lánastofnana sem hefði leitt til þess að húsnæðisverð hækkaði langt umfram það sem eðlilegt var.