Komið fram yfir öll þolmörk

„Þetta er skelfilegt. Við erum löngu komin fram yfir öll þolmörk. Atvinnulífið er að pakka í vörn en við þær aðstæður sem nú eru uppi þýðir það afturför. Við óttumst að það verði fjöldauppsagnir sem komi til framkvæmda þegar líður á haustið og síðan versni það bara dag frá degi,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands íslands um vaxtaákvörðun Seðlabankans.

Gylfi segir að verkalýðshreyfingin hafi kallað eftir því í nokkurn tíma að vöxtum verði komið niður fyrir 10% svo það verði lífvænlegra hér.

„En það var svo sem ekki við öðru að búast, miðað við þá umræðu sem er í þjóðfélaginu. Kannski var ekki hægt að ganga lengra,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.

Hann vísar til frágangs á Icesave máli og þeirra tafa sem hafa orðið á því og þess uppnáms sem er í kringum málið alls staðar í kringum okkur.

„Meðan að við erum að viðhalda óvissunni um hver okkar nánasta framtíð er og um fyrirkomulag fjármálakerfisins þá eru þessi bið og þessar tafir að skaða okkur gríðarlega. Það hefur verið okkar málflutningur, hversu góður eða slæmur þessi samningur er, að það verði að ganga frá honum. Valkosturinn við að fara í þessa deilu eins og menn eru að leggja upp með, kallar yfir okkur miklu meiri kostnað en hlýst af því að klára þetta,“ segir forseti ASÍ.

Gylfi Arnbjörnsson bendir á að um sextán þúsund manns séu án atvinnu í dag, á hábjargræðistímanum og engin sókn sé í sjónmáli. 

„Við erum bara að sökkva okkur niður. Vextirnir eru líkt og hengingaról um háls atvinnulífsins. Og það er enginn slaki á henni, heldur er hert að svo lengi sem óvissan ríkir. En sem betur fer þá erum við vel stödd þjóð, sem hefur talsverða möguleika á hagvexti. En að nálgast lausn á uppbyggingu fjármálakerfisins og trúverðugleika þess á þeim grundvelli að lýsa því yfir um allar koppagrundir að við séum gjaldþrota. Það er heimskulegt, svo ekki sé meira sagt,“ segir forseti ASÍ. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert