Nefnd vinnur að breytingum

Frá fundi fjárlaganefndar í gær. Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson, …
Frá fundi fjárlaganefndar í gær. Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson, Ólöf Nordal, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðbjartur Hannesson og Árni Þór Sigurðsson. Ómar Óskarsson

Fjárlaganefnd Alþingis fól í morgun fimm manna lögfræðinganefnd að vinna texta sem mið tekur af fyrirhuguðum breytingum á frumvarpi um ríkisábyrgð Tryggingasjóðs innistæðueigenda vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Vonast er til niðurstöðu seinni partinn í dag eða í kvöld.

Nefndina skipa Benedikt Bogason, Helgi Áss Grétarsson, Páll Þórhallsson, Einar Gunnarsson og Eiríkur Tómasson, samkvæmt heimildum mbl.is.

„Við munum vonandi fá textann til umfjöllunar frá lögfræðingunum eftir hádegi í dag og getum þá tekið málið upp til umfjöllunar,“ sagði Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is.

Guðbjartur sagðist ekki geta nefnt í nákvæmisatriðum hvaða efnisatriðum verði breytt, eða fyrirvari settur við viss atriði. Hins vegar lægi fyrir að helst vildu nefndarmenn, einkum úr stjórnarandstöðuflokkunum, „skerpa“ á efnahags- og lögfræðilegum fyrirvörum málsins. „Það er vonandi að allir geti sætt sig við þá niðurstöðu sem nú virðist í sjónmáli, og ég tel að það sé fullt tilefni til þverpólitískrar sáttar um málið,“ sagði Guðbjartur.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingarinnar, lagt áherslu á að réttarstaða landsins verði skýrari, þ.e. að dómstólar geti fjallað um hugsanleg deiluefni er tengjast Icesave-samningnum við Breta og Hollendinga, og einnig að tryggt sé með fyrirvörum að samningurinn verði þjóðinni ekki of þungbær í efnahagslegu tilliti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert