Verðbólguspá hækkuð umtalsvert

Hækkun skatta á bensín, áfengi og tóbak hefur áhrif á …
Hækkun skatta á bensín, áfengi og tóbak hefur áhrif á verðbólguna til hækkunar Kristinn Ingvarsson

Seðlabanki Íslands spáir því að verðbólgan verði mun meiri á fjórða ársfjórðungi heldur en áður var spáð. Í Peningamálum er nú gert ráð fyrir að verðbólgan verði 8,4% á fjórða ársfjórðungi en ekki 4,8% eins og áður var spá. Skýrist þetta af hækkun neysluskatta og og lágu gengi krónunnar.

Spátímabil Seðlabanka Íslands um verðbólguþróun nær út árið 2011.

Verðbólga á öðrum ársfjórðungi mældist 11,9% og hafði minnkað úr 17,1% á ársfjórðungnum á undan. Þetta er heldur meiri verðbólga en Seðlabankinn spáði í maí, en muninn má að nokkru leyti rekja til ofangreindrar hækkunar neysluskatta, sem ekki lá fyrir í maíspánni. Að teknu tilliti til áhrifa skattahækkunarinnar reyndist verðbólga á öðrum ársfjórðungi 11,5%, samkvæmt Peningamálum.

 Líklegt þykir að óhagstæðari gengisþróun hægi á hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum. Samkvæmt grunnspánni verður ársverðbólga á þriðja ársfjórðungi 10,6%, í stað 8% í maíspánni, og 8,4% á fjórða fjórðungi, í stað 4,8% í síðustu spá. Frávikið má að nokkru leyti rekja til fyrrnefndra hækkana neysluskatta. Að áhrifum þeirra frátöldum verður verðbólga á fjórða ársfjórðungi um 7%.

Útiloka ekki tímabundna verðhjöðnun

Útlit er því fyrir að verðbólga hjaðni hægar á næstu misserum en áður var talið. Gengi krónunnar hefur verið lægra en gert var ráð fyrir í fyrri spám, auk þess sem horfur eru á að framleiðsluslaki verði heldur minni á þessu ári. Hækkanir óbeinna skatta (Áfengi, bensín og tóbak) valda því einnig að verðbólga samkvæmt neysluverðsvísitölunni mun mælast meiri en spáð var áður en þær fyrirætlanir lágu fyrir.

„Eðlilegt er að horfa framhjá fyrstu umferðar áhrifum slíkra breytinga við ákvarðanir í peningamálum. Án þessara skattaáhrifa er útlit fyrir að verðbólga verði í samræmi við markmið á fyrri hluta næsta árs og að verðbólguþrýstingur verði afar takmarkaður á næstu árum.

Þótt útlit sé fyrir að launakostnaður hækki nokkru meira en gert var ráð fyrir í maí hefur töluverður framleiðsluslaki þegar myndast og atvinnuleysi er meira en samræmist verðstöðugleika.

Verðbólga mun því verða afar lítil um tíma og ekki er hægt að útiloka tímabundna verðhjöðnun á seinni hluta næsta árs og árið 2011. Þegar líða tekur á spátímabilið er hins vegar gert ráð fyrir að verðbólga verði farin að nálgast markmiðið á ný.

Þrátt fyrir að flestir undirliggjandi hvatar verðbólgu bendi til þess að hún hjaðni hratt á næstunni sýnir innlend og alþjóðleg reynsla að hún getur lifað sjálfstæðu lífi um langa hríð þótt verulegur slaki hafi myndast í þjóðarbúskapnum. Það á einkum við hafi hún verið mikil í aðdraganda samdráttarins og peningastefnan ekki veitt verðbólguvæntingum nægilega kjölfestu.

Þetta getur gerst ef laun eða verð eru beint eða óbeint tengd við liðna verðbólgu, t.d. ef ákvæði í kjarasamningum kveða á um leiðréttingu kaupmáttar eða ef verð vöru eða þjónustu er uppfært í takt við liðna verðbólgu.

Einnig getur ótti við frekari gengislækkun krónunnar haldið aftur af hjöðnun hennar. Það er því ekki sjálfgefið að verðbólga verði lítil á næstu misserum og til að tryggja það er nauðsynlegt að peningastefnan sé hæfilega aðhaldssöm," að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Peningamál í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert