VG fær formennsku í Þingvallanefnd

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Vinstri hreyfingin grænt framboð fær formennsku í nýkjörinni Þingvallanefnd. Nefndin kemur saman til fyrsta fundar á mánudag.

Alþingi kaus á þriðjudag sjö alþingismenn og jafnmarga til vara í Þingvallaefnd.

Aðalmenn eru Björgvin G. Sigurðsson og Valgerður Bjarnadóttir, Samfylkingu, Ragnheiður E. Árnadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Álfheiður Ingadóttir og Atli Gíslason, Vinstri hreyfingunni grænu framboði og Höskuldur Þórhallsson úr Framsóknarflokki.

Varamenn í Þingvallanefnd eru Oddný G. Harðardóttir og Helgi Hjörvar, Samfylkingu, Jón Gunnarsson og Árni Johnsen, Sjálfstæðisflokki, Þuríður Backman og Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri hreyfingunni grænu framboði og Vigdís Hauksdóttir úr Framsóknarflokki. 

Samkomulag er um að VG fái formennsku í Þingvallanefndinni og er nafn Álfheiðar Ingadóttur nefnt í því sambandi. Nefndin kemur saman til fyrsta fundar á mánudag og kýs sér formann.

Fulltrúar í Þingvallanefnd hafa hingað til ekki fengið greidda þóknun fyrir störf sín í þágu nefndarinnar. Engin ákvörðun hefur verið tekin um breytingar á því fyrirkomulagi, samkvæmt svari við fyrirspurn mbl.is til forsætisráðuneytisins.

Þingvallanefnd fer með yfirstjórn þjóðgarðsins, fyrir hönd Alþingis. Hennar bíður m.a. það verkefni að taka ákvörðun um uppbyggingu í kjölfar bruna Hótels Valhallar 10. júlí sl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert