Vilja Þráin af þingi

Þráinn Bertelsson, þingmaður Borgarahreyfingarinnar.
Þráinn Bertelsson, þingmaður Borgarahreyfingarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar sendu stjórnarfundi hreyfingarinnar bréf á þriðjudag þar sem störf Þráins Bertelssonar voru rædd. Þingmennirnir lögðu til að Þráinn tæki sér frí frá þingstörfum þar sem hann hefði hætt samstarfi um málefni hreyfingarinnar á Alþingi.

Í bréfinu sem birt er á heimasíðu hreyfingarinnar segir meðal annars:

Stærstu og mikilvægustu málin sem íslenskt samfélag á við að glíma eru víðtækar lýðræðis- og stjórnkerfisumbætur, Icesave-skuldbindingarnar sem og aðgerðir sem grípa þarf til til varnar heimilunum í landinu. Til þess að vinna þessum stefnumálum Borgarahreyfingarinnar fylgi á Alþingi er mikilvægt að þinghópurinn sé heill og óskiptur. Það liggur því beinast við að Þráinn kalli þegar í stað inn varamann í sinn stað og taki sér sjálfur góðan umhugsunarfrest um framtíðaraðkomu sína málefnum borgarahreyfingarinnar.

Ljóst er að afstaða Þráins er ekki tekin með hagsmuni þinghópsins, Borgarahreyfingarinnar eða kjósenda í huga. Tekið skal fram að við þrjú höfum ítrekað boðað Þráinn á fund okkar án árangurs. Við höfum einnig reynt að leiða deiluna frá kastljósi fjölmiðla enda finnst okkur eðlilegra að fólk ræðist við undir fjögur augu frekar en í fjölmiðlum. Þráinn hefur sem kunnugt er kosið að fara aðra leið.

Þá gerum við alvarlegar athugasemdir við framkomu formanns stjórnar Borgarahreyfingarinnar í fjölmiðlum, nú síðast í viðtali á Vísi þar sem hann meðal annars segir hreyfinguna áhrifalausa í Icesave-málinu. Það er einfaldlega ekki rétt.

Undir bréfið skrifa Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir.

Samkvæmt fundargerð var lögð fram tillaga á stjórnarfundinum um að málið yrði tekið af dagskrá en tekið upp á landsfundi, sú tillaga var samþykkt samhljóða.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert