Lilja Skaftadóttir, stjórnarmaður í Borgarahreyfingunni, hefur sagt skilið við flokkinn. Þar með hafa a.m.k. fjórir stjórnarmenn sagt skilið við flokkinn í kjölfar hatrammra deilna innan hans.
Stjórnarmenn og aðrir félagsmenn Borgarahreyfingarinnar hafa verið ódeigir við að tjá sig um þær logandi deilur sem hafa verið innan flokksins.
Fyrr í morgun var greint frá því að Herbert Sveinbjörnsson og stjórnarmennirnir Valgeir Skagfjörð og Sigurður Hr. Sigurðsson hefðu sagt skilið við flokkinn. Nú hefur Lilja skaftadóttir, stjórnarmaður bæst í hópinn.
Lilja segir liðna viku hafa verið erfiða fyrir Borgarahreyfinguna, stjórn hennar og þingmenn.
„Eftir að einkabréf þingmanns okkar Margrétar Tryggvadóttur til Katrínar Snæhólm, varaþingmanns Þráins Bertelssonar var gert opinbert eru litlar líkur á því að sættir náist, sama hvað sáttanefnd sú sem stofnuð var leggur mikið á sig. Þó svo að Margrét segi að um einkabréf hafi verið að ræða er ekki lengur hægt að líta á innihald þess sem einkamál þegar 15 manna hópur hefur fengið það í hendurnar,“ segir Lilja.
Það var Lilja sem greindi Þráni frá téðum tölvupósti. pósturinn var sendur 7. ágúst og biður Lilja Þráinn afsökunar á því að hafa ekki miklu fyrr sagt frá póstinum. Lilja óskar flokknum velfarnaðar í bráð og lengd.
„Ég vona einnig að hún eigi eftir að sanna það í verki sem hún hefur svo oftar boðað í orðum. Öllum þeim sem ég hef unnið með í kraftmiklu og gefandi samstarfi vil ég þakka samskiptin og óska þeim alls hins besta. Ég læt hér með lokið afskiptum mínum af starfi stjórnar Borgarahreyfingarinnar,“ segir Lilja Skaftadóttir.