„Lítið undan og verjið augun sem allra bezt. HORFIÐ EKKI Í LJÓSIÐ...Kvikni í fötum yðar, skuluð þér reyna að slökkva eldinn með því að velta yður á þann líkamshluta, sem er í hættu. Liggið kyrr, unz höggbylgjan hefur gengið yfir. Leitið síðan strax betra skýlis."
Svona hljómar texti á síðu 21 úr fræðsluriti um Almannavarnir frá árinu 1967, þegar áherslaskrifstofu Almannavarna var á varnir og viðbúnað gegn kjarnorkuvá.
Í greininni Heimsendir handan við hornið í sunnudagsblaði Morgunblaðsins verður fjallað um kalda stríðið, kjarnorkuvetur og kjarnorkuvána sem gekk í endurnýjun lífdaga á áttunda áratugnum á meðan á vopnakapphlaupi stórveldanna stóð.
Ungt fólk og börn sem ólust upp á þessu tíma eru nú á fertugs og fimmtugs aldri og muna vel eftir leiðbeiningum um hvernig átti að bregðast við kjarnorkuárás úr símaskrá landsins og eins úr sjónvarpi. Þá var umfjöllun af því tagi sem hér sést í Kastljósi Ríkissjónvarpsins frá 1985 og 1988 algeng og afar áhrifarík eins og sjá má.
Svo virðist sem djúpstæður ótti hafi hreiðrað um sig hjá mörgum sem ólust upp á þessum tíma enda ekki undarlegt þegar boðskapur kvikmynda, tónlistar og almennrar umfjöllunar snérist iðulega um tilgangslaust vopnakapphlaup stórveldanna og möguleikann á þriðju heimsstyrjöldinni.
Kynslóðin sem nú er að koma á vinnumarkað kann að vera svartsýn á framtíðina með Icesave og gróðurhúsaáhrif á næsta leiti en líklega má færa sannfærandi rök fyrir því að aldrei hafi mannskepnan verið eins nálægt eigin útrýmingu eins og á meðan vopnakapphlaupi kalda stríðsins stóð.