Laun umfram 400 þúsund lækki um 3-10%

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna. mbl.is/Golli

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að laun starfsmanna stjórnarráðsins, umfram 400 þúsund krónur á mánuði, lækki um 3-10%. Þá verður öllum aksturssamningum sagt upp og aðeins greitt eftir akstursdagbók og þröngar skorður verða settar vegna ferðakostnaðar innanlands. Áhersla er lögð á að hrinda aðgerðunum í framkvæmd sem fyrst.

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á að gæta ítrasta aðhalds í rekstri ríkisins. Leggja á af eða lækka verulega, þóknanir fyrir nefndir, setja á hömlur á aðkeypta ráðgjafaþjónustu og marka skal þá stefnu að engin ríkislaun verði hærri en laun forsætisráðherra. Þá er ætlunin að samræma reglur allra ráðuneyta um niðurskurð í ferða-, risnu- og bifreiðakostnaði. Loks verða sjálfstæðum hlutafélögum í eigu ríkisins settar skýrar reglur um launastefnu og útgjaldastefnu í þessum anda.

Minnisblað fjármálaráðuneytisins um Launakostnað ríkisins, aksturssamninga, ferðakostnað, þóknanir og risnu var lagt fram í ríkisstjórn í morgun og samþykkt að hrinda í framkvæmd tillögum sem þar eru settar fram.

Laun lækki um 3-10%

Í fyrsta lagi er lagt til að heildarlækkun launa umfram 400 þúsund krónur á mánuði hjá starfsfólki stjórnarráðsins verði á bilinu 3-10% og að lækkun launa verði almennt meiri í ráðuneytum sem borga hærri meðallaun. Þá munu fjármálaráðuneyti og hlutaðeigandi fagráðuneyti útfæra leiðir til að ná fram samsvarandi lækkun launa umfram 400 þúsund krónur á mánuði hjá stofnunum ríkisins, í samstarfi við forstöðumenn. Ekki er gert ráð fyrir að dagvinnulaun verði lækkuð heldur komi lækkunin fram í fækkun eininga og yfirvinnustunda. Áhersla er lögð á að kynbundnum launamun verði útrýmt eins og kostur er. Ljóst þykir að 3-10% lækkun launa umfram 400 þúsund á mánuði, muni ekki nægja til að mæta markmiðum fjárlaga næsta árs um niðurskurð í útgjöldum ráðuneyta. ÞVí liggur fyrir að frekari ráðstafana er þörf.

Aksturssamningum sagt upp

Þá samþykkti ríkisstjórnin að segja upp öllum aksturssamningum við starfsmenn ríkisins. Í staðinn verður aðeins greitt fyrir akstur skv. akstursbók. Sá fyrirvari er þó settur að komi í ljós að einhverjum tíma liðnum að lokaðir aksturssamningar hafi í för með sér lægri kostnað fyrir hlutaðeigandi stofnun, getur forstöðumaður hennar sent beiðni um endurnýjun aksturssamninga til Bílanefndar sem tekur endanlega afstöðu til þess hvort nýir samningar verði gerðir.

Þrengri skilyrði vegna ferðakostnaðar

Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar verður starfsmönnum eingöngu greitt skv. reikningi vegna ferðalaga innanlands. Hingað til hefur ferðakostnaðarnefnd ákveðið dagpeninga vegna ferðalaga sem greiddir hafa verið, óháð útlögðum kostnaði. Þá er skýrt tekið fram í samþykkt ríkisstjórnarinnar að ferðakostnaður fari ekki umfram viðmið ferðakostnaðarnefndar. Dagpeningar ríkisstarfsmanna vegna ferðalaga erlendis voru lækkaðir tímabundið frá 1. mars sl. um 10%. Þá var reglum breytt sem fólu í sér lækkun ferðakostnaðar ráðherra, afnám ferðakostnaðar fyrir maka ráðherra og afnám sérreglna um tiltekinn hóp embættismanna.

Risnukostnaður lækki um 15%

Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar verður áfram stuðst við núverandi reglur um risnuhald hjá ríkisstofnunum og þær áréttaðar, en stefnt að a.m.k. 15% lækkun milli ára. Þá verður það á ábyrgð hvers ráðuneytis um sig að tryggja að nauðsynlegs aðhalds sé gætt. Ríkisstjórnin telur eðlilegt að lækkun risnukostnaðar nái einnig til stofnana ríkisins.

Loks er í tillögunum gert ráð fyrir að viðmiðunarreglur um fyrirkomulag greiðslna fyrir störf í stjórnum, ráðum, nefndum og starfshópum verði samþykktar.

Í minnisblaðinu segir að fjármálaráðuneytið muni aðstoða einstök ráðuneyti við framangreind verkefni eins og þörf er á. Áhersla er lögð á að ráðuneytin hefji þegar undirbúning að því að hrinda framangreindum ráðstöfunum í framkvæmd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert