Lögreglumenn segjast velta því alvarlega fyrir sér miðað við þær fregnir sem komið hafa af úrsögn lögreglumanna úr svokölluðum mannfjöldastjórnunarhópum lögreglu, hvoru megin línunnar þeir muni standa komi til annarrar „búsáhaldabyltingar" í haust eða vetur
Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Landssambands lögreglumanna (LL) og formanna svæðisdeilda sambandsins, sem samþykkt var í gærkvöldi.
Þar er hörmuð sú staða, sem komin sé upp í lögreglunni í landinu. Um langa hríð hafi verið fækkun í stéttinni vegna ónógra fjárveitinga. Breytingum hafi verið hrint í framkvæmd undir yfirskyni hagræðingar, þ.e. sparnaðar, í rekstri lögreglunnar. Slíkar breytingar hafi jafnan verið settar í þann búning, gagnvart almenningi, að verið sé að „efla, styrkja og bæta" þjónustu lögreglunnar.
Landssamband lögreglumanna er mjög vel meðvitað um það ástand sem uppi er í þjóðfélaginu í dag, kannski betur en mörg önnur stéttarfélög, því það voru jú félagsmenn LL sem tóku við reiði fólksins í landinu framan við Alþingi Íslendinga í „búsáhaldabyltingunni" svokölluðu, í upphafi þessa árs. Þar rigndi yfir lögreglumenn grjóti, saur, þvagi, málningu, matvælum ýmis skonar o.fl. miður skemmtilegum „flugskeytum".
Félagsmenn LL eru í nákvæmlega sömu sporum og aðrir launþegar þessa lands, með sínar fjárhagslegu, sem og aðrar, skuldbindingar. Lögreglumenn velta því nú alvarlega fyrir sér, sbr. þær fregnir sem komið hafa af úrsögn félagsmanna LL, úr svokölluðum mannfjöldastjórnunarhópum lögreglu, hvoru megin línunnar þeir muni standa komi til annarrar „búsáhaldabyltingar" í haust eða vetur," segir í ályktun fundarins.