Stjórn Borgarahreyfingarinnar beinir þeim tilmælum til þingflokks hennar að ráða nú þegar bót á samskiptavanda sínum og Margrét Tryggvadóttir er hvött til að kalla til varamann sinn á þingi og íhuga stöðu sína sem þingmaður, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá þremur meðlimum stjórnar Borgarahreyfingarinnar.
Það er því af og frá að kenna sundurlyndi stjórnar um hvernig þetta mál hefur rýrt trúverðugleika og traust Borgarahreyfingarinnar.
Stjórn Borgarahreyfingarinnar beinir þeim eindregnu tilmælum til þingflokks Borgarahreyfingarinnar að ráða nú þegar bót á samskiptavanda sínum.
Jafnframt beinir stjórn Borgarahreyfingarinnar þeim tilmælum til Margrétar Tryggvadóttur að hún kalli til varamann sinn á þingi og íhugi stöðu sína sem þingmaður Borgarahreyfingarinnar.
Borgarahreyfingin, stefna hennar og hugsjónir eru hafnar yfir einstakar persónur. Stjórn Borgarhreyfingarinnar leggur þvi áherslu á að fólk axli ábyrgð á gjörðum sínum séu þær þess eðlis að skaða trúverðugleika hreyfingarinnar.
Borgarahreyfingin var stofnuð með það að markmiði að vinna að heiðarleika og siðbót í íslenskum stjórnmálum og átelur því þau vinnubrögð sem leitt hafa af sér þá umræðu sem nú hefur átt sér stað um starfshætti Borgarhreyfingarinnar.“
Undir yfirlýsinguna skrifa Guðmundur Andri Skúlason, Ingifríður R. Skúladóttir og Sævar Finnbogason.
Í tilefni af þessari yfirlýsingu sendi Friðrik Þór Guðmundsson frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„1. Á stjórnarfundi Borgarahreyfingarinnar í kvöld, 14. ágúst 2009, skipti stjórn með sér verkum á ný, í ljósi brotthvarfs fjögurra aðalstjórnarmanna og samkvæmt niðurstöðum stjórnarkosninga á auka-aðalfundi hreyfingarinnar 13. júní 2009. Formaður er Baldvin Jónsson (komst ekki á fundinn í kvöld), varaformaður Margrét Rósa Sigurðardóttir, gjaldkeri Björg Sigurðardóttir, ritari Ingifríður R. Skúladóttir og meðstjórnendur eru þau Þór Saari (mætti ekki), Margrét Tryggvadóttir (mætti ekki), Guðmundur Andri Skúlason og Sævar Finnbogason - samtals 8 í stjórn.
2. Undirritaður var fjölmiðlafulltrúi hreyfingarinnar í kosningabaráttunni í vor, en eftir kosningar lauk því ólaunaða sjálfboðaliðastarfi. Ég hef ekki komið nálægt slíkum "PR" málum síðan og þar með ekki að "PR" hörmung þeirri sem hreyfingin hefur átt við að stríða. Fyrir um það bil tveimur sólarhringum óskaði stjórn hreyfingarinnar eftir því að ég kæmi aftur til starfa sem (ólaunaður sjálboðaliði) fjölmiðlafulltrúi á ný. Í ljósi þess að Sáttanefnd var í gangi og líkur til þess að vopnahlé næðist þann stutta tíma sem eftir er til aðalfundar þá sagði ég já. Hins vegar er þessi yfirlýsing þriggja stjórnarmanna, af átta, hreinn og beinn löðrungur í andlitið á Sáttanefndinni og þar með grasrótinni sem sendi Sáttanefndina á vettvang. Í ljósi þess er þessu ofurstutta starfi mínu lokið, eftir aðeins tæpa tvo sólarhringa eða svo. Ég kæri mig ekki um að bendla nafn mitt við svona almannatengsla-slys og vanvirðingu á störfum Sáttanefndarinnar!“