Sáttanefnd Borgarahreyfingarinnar vinnur að því að reyna að ná sátt innan hreyfingarinnar. Sáttanefndin treystir sér ekki til þess að leysa persónuleg ágreiningsefni en mun halda áfram að vinna að sáttum innan hreyfingarinnar. Stjórn Borgarahreyfingarinnar hefur verið boðuð á fund síðdegis í dag.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem send hefur verið til fjölmiðla. Jafnframt var send út yfirlýsing frá Birgittu Jónsdóttur og Þór Saari, þingmönnum Borgarahreyfingarinnar þar sem þau segja það einfaldlega af og frá að Margrét stundi einhverja rógsherferð gegn Þráni Bertelssyni, „eða að henni gangi eitthvað illt til og við sem þekkjum hana vitum að vart er að finna heiðarlegri, heilsteyptari og hugulsamari manneskju en kæran félaga okkar Margréti Tryggvadóttur, að því er segir í yfirlýsingu þeirra Birgittu og Þórs.
Yfirlýsing Sáttanefndar Borgarahreyfingarinnar
„Sáttanefnd Borgarahreyfingarinnar, sem kjörin var á félagsfundi 6. ágúst, hefur á liðinni viku átt fundi með öllum kjörnum fulltrúum borgarahreyfingarinnar um þá samstarfsörðuleika sem einkennt hafa starf hreyfingarinnar undanfarnar vikur.
Allir aðilar voru tilbúnir að vinna með okkur að lausn mála en eins og ljóst er orðið var ágreiningurinn þarna of djúpstæður og persónulegur til þess að sætta alla aðila.
Það er ljóst að mörg ágreiningsefnin stafa af skorti á skýrum lögum og verklagsreglum þessarar ungu hreyfingar.
Sáttanefndin treystir sér ekki til þess að leysa persónuleg ágreiningsefni en mun halda áfram að vinna að sáttum innan hreyfingarinnar.
Sáttarnefndin vonast til þess að friður ríki um þá mikilvægu vinnu sem er framundan við undirbúning landsfundar sem á meðal annars að móta lög og verklagsreglur hreyfingarinnar.
Sáttanefndin harmar að sjá á eftir því góða fólki sem nú hefur sagt sig úr hreyfingunni en hvetur það, og þá sem eftir eru í hreyfingunni að einbeita sér að framgangi þeirra stefnumála sem við urðum ásátt um við stofnun Borgarahreyfingarinnar."
Yfirlýsing Birgittu Jónsdóttur og Þórs Saari vegna umfjöllunar fjölmiðla um þinghóp Borgarahreyfingarinnar
„Vegna umfjöllunar fjölmiðla um þinghóp Borgarahreyfingarinnar og bréf Margrétar Tryggvadóttur til stjórnar hreyfingarinnar finnst okkur undirrituðum úr þinghópinum tilefni til árétta eftirfarandi.
Haft var samband við Margréti af manni sem er vel inn í málum Borgarahreyfingarinnar og þingmanna hennar og sem einnig er sálfræðimenntaður með mikla reynslu.
Lýsti hann áhyggjum sínum við Margréti vegna yfirlýsinga og aðgerða samþingmanns okkar Þráins Bertelssonar. Í framhaldinu hafði Margrét samband við fyrsta varaþingmann Borgarahreyfingarinnar í kjördæmi Þráins sem er einnig í stjórn hreyfingarinnar til að fá lánaða dómgreind og leita ráða. Fyrir slysni fór póstur Margrétar á alla stjórnina. Hvorugar hafa sýnt neina tilburði til að sverta mannorð Þráins fyrr né síðar.
Margrét hafði þegar samband við stjórnina og bað hana fyrir trúnað með erindið. Hins vegar kaus einhver eða einhverjir að gera málið tortryggilegt og opinbert og með því skaða Borgarahreyfinguna og aðra hlutaðeigandi. Margrét hafði áður sent Þráni afsökunarbréf.
Undir eðlilegum kringumstæðum hefði Margrét lýst áhyggjum sínum við stjórn hreyfingarinnar sem hefði haldið fullum trúnaði um það. Sundurlyndi innan stjórnarinnar hefur hins vegar valdið því að mál þetta er orðið opinbert og er það miður.
Það er einfaldlega af og frá að Margrét stundi einhverja rógsherferð gegn Þráni Bertelssyni eða að henni gangi eitthvað illt til og við sem þekkjum hana vitum að vart er að finna heiðarlegri, heilsteyptari og hugulsamari manneskju en kæran félaga okkar Margréti Tryggvadóttur".