Á sama tíma og sjúkraliðar ganga atvinnulausir hefur borið á því að forstöðumenn hjúkrunarheimila ráði unglinga og annað ófaglært starfsfólk í störf sjúkraliða, að sögn Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Sjúkraliðafélags Íslands. Hún segir að einnig hafi borið á því að sjúkraliðar sem starfa á stofnunum og óskað hafa eftir aukinni starfsprósentu yfir sumartímann hafi ekki fengið og ófaglært fólk ráðið í staðinn.
Í bréfi sem sent var öllum forstöðumönnum hjúkrunarheimila í vikunni, minnir formaður félagsins á ákvæði laga um forgangsrétt sjúkraliða til sjúkraliðastarfa. Í lögunum segir m.a. að óheimilt sé að ráða aðra en sjúkraliða til sjúkraliðastarfa nema áður hafi verið auglýst eftir sjúkraliðum án árangurs. Þá segir að hafi verið auglýst eftir sjúkraliðum á síðustu sex mánuðum án árangurs sé þó ekki skylt að auglýsa að nýju.
„Í ljós hefur komið að 29 sjúkraliðar eru skráðir atvinnulausir hjá vinnumálastofnun. Það er ólíðandi að mati félagsins að á sama tíma hefur borið á því að stofnanir auglýsi ekki eftir sjúkraliðum þegar þörf er á að ráða í sjúkraliðastörf. Ráðnir hafa verið unglingar og annað ófaglært starfsfólk sem gerir lítið annað en að auka það álag sem fyrir er á sjúkraliðum við vinnu sína,“ segir í bréfinu til forstöðumanna hjúkrunarheimila.
Ennfremur segir að allar kvartanir sem til félagsins koma verði rannsakaðar/skoðaðar og kærðar, komi í ljós að um brot á lögum og reglugerð um sjúkraliða hafi verið að ræða.
Vefur Sjúkraliðafélags Íslands