Líkurnar á þverpólitískri sátt í Icesave-málinu minnkuðu til muna eftir að trúnaðargögn úr fjárlaganefnd láku í fjölmiðla seint í gærkvöldi. Málið er talið skaðlegt fyrir hagsmuni Íslands gagnvart Bretum og Hollendingum. Ekki er vitað hver lak gögnunum sem innihalda drögin af fyrirvörum við samninginn. Sáttavilji hefur nú vikið að einhhverju leyti fyrir tortryggni.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að lekinn hjálpi ekki til við lausn málsins en trúnaðargögnin voru sett á netið um miðnætti. Enn er deilt um málið í þingflokki Vinstri grænna en langt hefur þó þokast í samkomulagsátt þar síðustu tvo sólarhringana.
Fundur fjárlaganefndar í dag ræður hinsvegar úrslitum um hvort þverpólitísk sátt næst í málinu.