Stjórnin gagnrýnd fyrir hörku

Steingrímur J. Sigfússon og Kristin Halvorsen
Steingrímur J. Sigfússon og Kristin Halvorsen mbl.is/Golli

Samkvæmt heimildum ABC-fréttastofunnar í Noregi hringdi Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, í Steingrím J. Sigfússon til að róa hann vegna norskrar fjölmiðlaumfjöllunnar af þeim skilyrðum sem norsk yfirvöld setja vegna láns til Íslands.

Norska stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt stjórnina fyrir harðan framgang gegn Íslendingum. „Noregur hefur sett sömu kröfur fyrir láni og Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Þ.e. að Íslendingar gangist í ábyrgð fyrir milljarðagreiðslur til viðskiptavina Icesave í Hollandi og Bretlandi,“ segir á vef ABC.

Í bréfi til fréttavefjarins frá norska fjármálaráðuneytinu segir að þingið hafi samþykkt skilmálana fyrir lánveitingu norskra yfirvalda. „Ekki nota þingið sem afsökun fyrir því að veita ekki lán. Leggið málið heldur fyrir þingið svo við getum fundið lausn!“ segir Morgen Høglund, talsmaður utanríkismála hjá norska Framfaraflokknum, við ABC-fréttavefinn.

Kristin Halvorsen hefur ekki viljað tjá sig um afstöðu stjórnarinnar í fjölmiðlum en að sögn ABC mun hún ræða hana í viðtali í norska ríkissjónvarpinu í kvöld.

„Noregur verður að finna leið til að gefa Íslandi efnahagsaðstoð og það má ekki dragast,“ segir Morgen Høglund. Hann gagnrýnir að norsk stjórnvöld skuli setja sem skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð að Íslendingar taki á sig Icesave-skuldbindingarnar. „Það er mikilvægt að hjólin komist aftur í gang á Íslandi og til þess verða Noregur og Norðurlöndin að vera virk,“ segir Høglund.  

Talsmaður Miðjuflokksins, Per Olaf Lundteigen, hefur einnig stutt hugmyndir um skjóta aðstoð til Íslendinga og þá jafnvel norskt lán upp á 100 milljarða norskra króna á góðum kjörum. Lundteigen krefst þess einnig að fallið verði frá þeim kröfum sem norsku stjórnarflokkarnir setja fyrir láni, að Ísland falli frá því að fara dómstólaleiðina vegna ríkisábyrgða Icesave-skuldanna.

Fréttavefur ABC í Noregi hefur fjallað nokkuð um framgang Icesave-deilunnar og skilyrði fyrir lánveitingum að undanförnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert