„Ég get ekki tekið þátt í svona og er búinn að afskrifa Borgarahreyfinguna hvað mig varðar. Ég vona þó innst inni að þetta gangi upp því ég hef trú á því sem stefnan segir en þingmenn okkar hafa brugðist,“ segir Herbert Sveinbjörnsson, formaður Borgarahreyfingarinnar. Hann sagði sig úr flokknum í gær. Þá hafa þeir Valgeir Skagfjörð varaþingmaður og Sigurður H. Sigurðsson sagt sig úr stjórn hreyfingarinnar.
Borgarahreyfingin hefur logað stafna á milli svo ekki sé meira sagt. Deilur hafa verið innan þinghópsins og samstarfsörðugleikar milli kjörinna þingmanna og stjórnar. Þá þykir almennum félagsmönnum sem kjörnir fulltrúar hafi svikið stefnu hreyfingarinnar og fjarlægst grasrótina á undraskömmum tíma. Kornið sem fyllti mælinn er tölvupóstur sem Margrét Tryggvadóttir, einn fjögurra þingmanna Borgarahreyfingarinnar sendi í gær. Pósturinn fór einhverra hluta vegna á alla stjórnarmenn. Þar talar Margrét um að Þráinn Bertelsson þingmaður sé þunglyndur og kunni að vera með alzheimer á byrjunarstigi.
„Draumurinn snerist upp í andhverfu sína og ég get ekki meir. Ég hef engan áhuga á að starfa í pólitískum flokki af gamla skólanum, þrátt fyrir fallega stefnu, sem reyndar allir flokkar hafa. Þá hefði ég bara gengið í samfó,“ segir Herbert Sveinbjörnsson, fyrrverandi formaður flokksins í nokkurs konar kveðjubréfi til hreyfingarinnar.
Hanns egir erfitt að horfa á barnið sitt verða að athlægi og gera sig að fífli, horfa á það breytast í það sem hann fyrirlíti.
„Það sem maður taldi sig vera að berjast gegn. Tímanum og alúðinni sem maður eyddi í að næra, bastarðinn. Tími sem maður eyddi frá vinum og fjölskyldu í þeirri von að barnið kæmist til manns. Manns sem ég sá fyrir mér yrði málsvari heiðarleika, réttlætis og siðferðis,“ segir í bréfi Herberts.
Hann segir engan sáttavilja eða samstarfsvilja hjá þremur þingmönnum flokksins og vísar til Birgittu Jónsdóttur, Þórs Saari og Margrétar Tryggvadóttur.
„Flokksdindlar hrúgast um flokksfólkið, það tók ekki langan tíma. Kemur ekki maður í manns stað var svarið. Ég sat ágætis fund í kvöld í von um að finna neistann. Hann bara kom ekki. Vonarneistinn sem Borgarahreyfingin var fyrir mér dó þegar að 3/4 þingmanna okkar stunduðu framsóknarpólitík, hundsuðu lýðræðislega kosna stjórn hreyfingarinnar í einu og öllu og gerðu setu sína á þingi að einkaflippi í umboði sjálfs síns. 4. þingmaðurinn ber á mig að ég sé samsekur bréfaskriftum nokkrum, sem fylltu mælinn hjá okkur flestum, vegna þess að ég sendi honum ekki bréfið umsvifalaust. Vil ég engu að síður, að gefnu tilefni, lýsa yfir stuðningi mínum við hinn meinta "framsóknarmann" Þráinn Bertelsson og hans störf, hann einn stóð við gefin loforð og stundaði ekki framsóknarpólitík. Ég var svo sem varaður við, pólitík er með hundaæði og það þarf að lóga henni það er ekki til lækning önnur,“ segir í bréfi Herberts.