Eftir Magnús Halldórsson
Fyrirvarnir sem fulltrúar allra flokka nema Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd samþykktu, vegna frumvarps um ríkisábyrgð Tryggingasjóðs innstæðueigenda, eiga að tryggja að greiðslur vegna Icesave verði ekki of íþyngjandi fyrir þjóðina.
Fulltrúar fjögurra flokka náðu saman um efnahagslega fyrirvara sem eiga að tryggja að greiðslur af lánum frá Bretum og Hollendingum, vegna Icesave-reikninga Landsbankans, verði ekki of íþyngjandi. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að sátt hafi náðst um þá tillögu, sem greint var frá í Morgunblaðinu á föstudag, að þróun hagvaxtar myndi stýra greiðslum. Ef hann væri enginn myndu engar greiðslur eiga sér stað. „Það var tekist á um efnahagslegu tillögurnar og ég tel þetta vera ásættanlega niðurstöðu,“ sagði Guðbjartur.
Þá náðist einnig sátt um að dómstólar myndu skera úr um hvernig greiðslum úr þrotabúi Landsbankans yrði háttað, þ.e. hvernig röð kröfuhafa yrði.
Þór Saari, fulltrúi Borgarahreyfingarinnar í fjárlaganefnd, beitti sér einnig fyrir því að sérstakt ákvæði yrði í frumvarpinu sem legði áherslu á að rannsaka til fulls, hvað hefði orðið um það fé sem lagt var inn á Icesave-reikninganna í Hollandi og Bretlandi, og reynt yrði að endurheimta það.
Breytingartillögurnar sem samþykktar voru í nótt af fulltrúum fjögurra flokka, má sjá hér.