Margrét situr sem fastast

Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þráinn Bertelsson.
Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þráinn Bertelsson. Heiðar Kristjánsson

Margrét Tryggvadóttir, þingkona Borgarahreyfingarinnar hyggst ekki verða við tilmælum bráðabirgðastjórnar flokksins og víkja af þingi fyrir varamanni sínum vegna tölvubréfs sem lak til almennings þar sem hún lýsti áhyggjum sínum af andlegri heilsu Þráins Bertelssonar, þáverandi flokksfélaga hennar. „Ég hafði ekkert illt í hyggju og mér finnst ég ekki hafa neitt til saka unnið,“ segir Margrét.

Þráinn Bertelsson sagði sig úr Borgarahreyfingunni í gær. Hann sagðist í tölvubréfi til Margrétar setja stjórn flokksins þá afarkosti að annaðhvort yrði Margréti vikið frá eða hann segði sig úr flokknum.

Innt um það hvort að hvort hún hafi ekki talið rétt að víkja til að halda þingflokknum saman segir Margrét svo ekki vera. Hún gæti ekki séð fyrir sér að aðrir þingflokksmenn gætu unnið með Þráni eftir slíkar hrókeringar. Þá hafi Þráinn ekki haft nein samskipti við samflokksmenn sína í heilan mánuð og óvíst að hann hefði viljað starfa með þeim.

Margrét segist ekki geta svarað því hvort Þráinn hefði yfirgefið flokkinn hvort eð er hefði tölvubréfsmálið ekki komið til. „Þráinn verður að svara því.“

Ekki náðist í Þráinn Bertelsson vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka