„Okkur finnst þessir fyrirvarar ekki ganga nægilega langt,“ segir Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi Framsóknarflokks í fjárlaganefnd. Hann segir fyrirvarana við frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave vera þýðingarlausa sýndarmennsku. „Þetta er eitthvað sem Hollendingar og Bretar geta að sjálfsögðu vel fellt sig við. Það á við um flesta fyrirvarana, þeir eru nánast allir sama marki brenndir.“
Höskuldur segir að barátta undanfarinna mánaða hafi þó sem betur fer leitt til að gerðir voru einhverjir fyrirvarar við málið. „Og það er jákvætt, það má alveg halda því til haga.“
„Icesave-samningarnir eru einhverjir verstu samningar sem eitt einstakt ríki hefur gert,“ segir Höskuldur og kveðst helst hafa viljað semja upp á nýtt við Breta og Hollendinga.