Þrír dvelja í fangageymslum lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina fyrir líkamsárásir og jafnmargir fyrir ölvunarakstur. Nóttin var í rólegri kantinum að sögn lögreglumanns á vakt. Nokkrar tilkynningar bárust um mikinn hávaða, hópamyndun, gleðskap unglinga og fleira minniháttar.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað að Kleppsvegi um eittleytið í nótt en þar var fólk fast í lyftu. Fljótlegt reyndist að koma fólkinu til bjargar og gekk björgunin vel.