Brasilíumaður verði framseldur

Hosmany Ramos
Hosmany Ramos

Yfirvöld í Brasilíu hafa farið fram á það við íslensk stjórnvöld að Brasilíumaðurinn Hosmany Ramos, sem var handtekinn á Keflavíkurflugvelli fyrr í þessum mánuði með falsað vegabréf, verði framseldur. Þetta segir Smári Sigurðsson hjá Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra.

Hann segir að deildin hafi sett sig í samband við yfirvöld í Brasilíu á föstudag. Í framhaldinu hafi þau farið fram á framsal. Þau verði nú að senda íslenska dómsmálaráðuneytinu öll viðeigandi gögn. Það verði gert eins fljótt og auðið sé.

Ramos var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir skjalamisnotkun 14. ágúst sl.

Maðurinn, sem er 65 ára, er eftirlýstur í Brasilíu fyrir fyrir ýmis afbrot. Hann kom til Íslands frá Ósló 8. ágúst en var á leið til Toronto í Kanada. Maðurinn framvísaði vegabréfi annars manns í vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli.

Ramos hefur m.a. verið dæmdur fyrir mannrán og morð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert