Eiga að viðurkenna staðreyndir

Þingmenn bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lýstu þeirri skoðun í fyrirspurnum á Alþingi í dag, að þeir fyrirvarar, sem fjárlaganefnd Alþingis ætlar að segja við ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna, þýði að semja þurfi að nýju við Breta og Hollendinga. Fjármálaráðherra sagði hins vegar enga ástæðu til að ætla slíkt.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks,  sagði að menn ættu að horfast í augu við þá einföldu staðreynd, að breytingartillögur fjárlaganefndar gerbreyti forsendum samningsins. Sagðist Bjarni hafa af því miklar áhyggjur, ef forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki komið auga á þetta.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að ekki væri samhljómur í túlkun þeirra flokka, sem stóðu að því að afgreiða málið úr fjárlaganefnd. Spurði hann hvort ríkið muni fá færustu sérfræðinga til að taka þátt í nýjum samningaviðræðum eða hvort samninganefndin, sem gerði upphaflega samninginn, verði kölluð til.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra,  sagði enga ástæðu til að gefa sér að neitt slíkt komi til. Sagðist Steingrímur vona, að afgreiðsla fjárlaganefndar væri endanleg niðurstaða, sem allir sættu sig við. Engin ástæða væri til annars en að ætla, að niðurstaða meirihluta fjárlaganefndar sé efniviður í farsæla niðurstöðu, sem þjónar hagsmunum Íslands vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert