Íslendingar fá ekki annað tækifæri til að kanna hvort skynsamlegra hefði verið að bregðast öðruvísi við hér á landi eftir 5 ár. Það verður of seint. Því er nauðsynlegt að nýta nú þegar allar færar leiðir til að vinna gegn neikvæðum afleiðingum efnahagskreppunnar á heilsu og félagslega stöðu til að forðast heilsubrest og hamla gegn aukningu útgjalda á sviði heilbrigðis- og félagsmála.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins hefur unnið um sálfélagslega velferð barna á tímum efnahagsþrenginga. Skýrslan var kynnt á ráðstefnunni Velferð íslenskra barna - sóknarfæri á umbrotatímum sem haldin er í dag.
Starfshópurinn sem skipaður var þann 21. janúar 2009 af
þáverandi heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni skilaði tillögum
um það hvernig best mætti verjast sálfélagslegum afleiðingum
efnahagskreppunnar til Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra nýlega.
Í öllu starfi hópsins var horft sérstaklega til reynslu annarra þjóða af svipuðu hruni og efnahagsþrengingum sem hér urðu á liðnu hausti.
Starfshópurinn hafði víðtæk samráð við fagaðila og
fulltrúa félagasamtaka og lagði áherslu á að hugmyndir að aðgerðum væru
framkvæmanlegar með sem minnstum tilkostnaði í ljósi þeirrar
hagræðingar sem þegar er hafin í heilbrigðiskerfinu.