Óttast íslenskan spekileka

Margir hafa þegar yfirgefið landið í leit að betri framtíð. …
Margir hafa þegar yfirgefið landið í leit að betri framtíð. Viðskiptaráðherra vonast til þess að fólksflutningurinn verði hægur og bendir á jákvæðar langtímahorfur. mbl.is/Ómar

Fjallað er um fólksflutninga frá Íslandi á vef Deutsche Welle. Þar er sérstaklega rætt um svokallaðan spekileka, eða atgervisflótta (e. brain drain) í kjölfar hrunsins, þ.e. þegar vel menntað fólk fer í leit að tækifærum í öðrum löndum. Haft er eftir Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra að hann óttist þessa þróun.

Í greininni er fjallað um það hvernig erlendu vinnuafli fjölgað hér mikið á þensluárunum. Nú hafi flestir þeirra yfirgefið landið í kjölfar bankahrunsins. Margir Íslendingar fylgi nú á eftir í leit að betri framtíð. Þeir vilji komast hjá skattahækkunum og niðurskurði. Auk þess sem margir óttast aukið atvinnuleysi.

Greint er frá því að flestir haldi til Noregs, en búist sé við því að um 1000 Íslendingar fari þangað fyrir árslok. Það sé mikil blóðtaka fyrir litla þjóð. Meðal þeirra sem fari eru tækni- og sérmenntað fólk sem á góða möguleika á því að finna vinnu í öðru landi. 

Helmingurinn fluttur til Noregs

Rætt er við Atla Stein Guðmundsson, sem er 35 ára gamall, sem ætlar ásamt unnustu sinni að flytja til Noregs eða Hollands um leið og hann hefur lokið MA-námi sínu við Háskóla Íslands. Hann segir að um helmingur vina sinna hafi þegar flutt til Noregs. Hinn helmingurinn sé að íhuga málið.

Í greininni segir að margt ungt vel menntað fólk hyggist stefna út í nám, t.d. til Bretlands eða Bandaríkjanna, í stað þess að vera áfram í óvissunni á Íslandi í vetur.

Langtímahorfur á Íslandi góðar

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir þetta vera slæmar fréttir. Hann segir að það sé mjög alvarlegt mál ef allt unga fólkið sem nú sé úti í námi muni ekki snúa aftur heim. Það sama eigi við ef það vel menntaða fólk sem sé hér á landi yfirgefi það og komi ekki aftur.

Gylfi vonast hins vegar til þess að flutningur fólks úr landi verði hægur. Hann bendir á að langtímahorfur á Íslandi séu góðar. „Ríki um allan heim eiga einnig í vanda, svo tækifærin erlendis eru endilega ekkert það góð heldur.“

Greinin í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert