Skólastjóri Landakotsskóla, Fríða Regína Höskuldsdóttir, fékk í gærkvöldi uppsagnarbréf frá stjórn skólans. Að sögn Regínu hafa verið erfiðleikar í samstarfi hennar og stjórnarinnar frá áramótum en deilt hefur verið um faglega stjórn skólans. Stjórnin hafi haft afskipti af faglegri stjórn skólans sem hún telji vera í verkahring skólastjóra.
Að sögn Regínu hafði hún boðað kennara á fund klukkan níu í morgun en skólinn verður settur á fimmtudag en kennsla hefst á föstudag.
Regína segir í samtali við mbl.is að hún hafi leitað til menntamálaráðuneytisins vegna deilunnar við stjórn skólans og er von á úrskurði ráðuneytisins fyrir vikulok. Henni var hins vegar gert að láta af störfum strax en hún hefur stýrt skólanum í fjögur ár eða frá þeim tíma sem hann hefur verið sjálfseignarstofnun.
Á vef RÚV er haft eftir Páli Baldvini Baldvinssyni, sem situr í stjórn skólans, að uppsögnin sé tilkomin vegna hagræðingar, rekstur einkaskóla hafi þyngst talsvert eftir að kreppti að í efnahagsmálum.