Þjófahringur upprættur

Lögreglan hefur fundið mikið af þýfi, aðallega skartgripum, í fórum …
Lögreglan hefur fundið mikið af þýfi, aðallega skartgripum, í fórum fólks sem reyndi að selja skartgripi í verslun í Reykjavík í síðustu viku.

Par situr nú í gæsluvarðhaldi grunað um innbrot og þjófnað en á heimili parsins í Kópavogi var lagt hald á mikið magn skartgripa, myndavéla og annarra muna sem lögreglan telur víst að séu þýfi. Að minnsta kosti þrír aðrir karlmenn hafa einnig verið handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 21. ágúst, eins og parið.  Þá leitar lögregla manna, sem taldir eru tengjast þjófahópnum.

Parið var handtekið við skartgripaverslun í Reykjavík á fimmtudag þar sem það hafði reynt að selja skartgripi. Í fórum konunnar fundust þá skartgripir, sem stolið var í húsi í Reykjavík nokkrum dögum áður.  Munum, sem fundust á heimili fólksins, var m.a. stolið úr húsi fyrr í vikunni.

Fram kemur í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur vegna gæsluvarðshaldskrafna lögreglu, að allt sé fólkið af erlendum uppruna. Undanfarnar vikur hafi verið mjög mikið um innbrot í íbúðarhúsnæði í umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og gruni lögreglu, að fólkið tilheyri hópi sem stundi þessi innbrot. Lögreglan hefur síðastliðna mánuði verið að kortleggja þennan hóp.

Mennirnir þrír voru handteknir sl. miðvikudag eftir að lögreglan fékk tilkynningu um að þrír dökklæddir menn væru að fara inn um svaladyr á húsi í Reykjavík. Lögreglumenn voru mjög fljótir á staðinn og mættu  mönnunum í stigagangi húss þar sem þeir voru með fangið fullt af þýfi, m.a. poka fullan af áfengisflöskum og tösku með fartölvu. Mennirnir voru einnig með fulla vasa af ýmiskonar munum sem þeir höfðu tekið úr íbúðinni.

Þá segir lögregla að útlit mannanna komi heim og saman við útlitslýsingar vitna úr innbroti sem átti sér stað að á mánudag þar sem brotist var inn í prestsbústað í Reykjavík. Þaðan var stolið um 7 til 8 þúsund krónum í peningum, stafrænni myndavél og greiðslukorti prestsins. Lögregla fékk í kjölfarið upplýsingar um að teknar hefðu verið útaf kortinu um 100.000 krónur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka