Tilboð kanadíska fyrirtækisins Magma í hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku er á genginu 6,3. Orkuveitan keypti hins vegar sinn hlut og hlut Hafnafjarðar á genginu 7. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Sigrúnar Elsu Smáradóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitunnar.
Sigrún Elsa segir því ljóst, að Orkuveitan muni bera nokkurt fjárhagslegt tjón af þessum viðskiptum. Aðrir þættir hafi einnig áhrif á endanlegt virði tilboðsins, þá helst gengi krónunnar og álverð.
Hinsvegar sé ljóst, að ef tilboðinu verði ekki tekið muni Orkuveitan lokast inni með áhrifalausan minnihlutahlut í einkavæddu fyrirtæki. Þegar hafi verið tilkynnt að farið verði í hlutafjáraukningu þar sem miðað verður við gengið 4. Orkuveitan, sem handhafi 32% eignarhluta, mun ekki geta stöðvað það. Það er því ljóst að veruleg hætta sé á að hlutur Orkuveitunnar í félaginu muni rýrna verulega kjósi Orkuveitan að eiga hlutinn áfram. Því sé spurning hvernig skaði Orkuveitunnar verði takmarkaður.
Sigrún Elsa sat hjá þegar meirihluti stjórnarinnar samþykkti fyrir helgi að fela stjórnarformanni og forstjóra að ganga til samninga við Magma Energy Sweden AB um kaup þess á eignarhluta Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Lilja Mósesdóttir, fulltrúi VG í stjórninni, greiddi atkvæði gegn sölunni.
Í tilkynningu frá Magma Energy Corp. í dag kemur fram, að fyrirtækið eigi í viðræðum um kaup á 32,32% eignarhluta Orkuveitunnar í HS Orku. Í júlí hafi Magma keypt 10,78% hlut í HS Orku og jafnframt fengið kauprétt á um það bil 5% í viðbót. Gangi þessi kaup öll eftir eignist Magma 43,1% hlut í HS Orku og kauprétt á 5% til viðbótar, samtals 48,1% hlut.