Efnahags- og skattanefnd Alþingis lagði í dag fram lagafrumvarp á Alþingi um að handhafar forsetavalds fái samanlagt fimmtungs launa forseta þann tíma sem þeir fara með forsetavald um stundarsakir. Samkvæmt núgildandi lögum fá handhafar forsetavalds samtals jafnhá laun og forsetinn á meðan þeir fara með forsetavald.
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að það sé liður í stefnu stjórnvalda að ná fram hagræðingu og sparnaði í ríkisrekstri. Greiðslur til handhafa forsetavalds hafa numið um 10 milljónum króna sl. fimm ár á núverandi verðlagi og lækka því í 2 milljónir verði störf handhafanna framvegis áþekk því sem verið hefur.
Lækkunin er ákveðin með hliðsjón af því að eðli málsins samkvæmt eru störf handhafa forsetavalds að mestu takmörkuð við lögbundin störf, svo sem staðfestingu laga og þess háttar, þegar forseti Íslands er erlendis, en ekki heimsóknir, móttökur, setningarávörp og annað af því tagi sem m.a. felst í störfum forsetans. Óheimilt yrði hins vegar talið vegna ákvæða stjórnarskrárinnar að fella þessar greiðslur niður með öllu og því leggur nefndin til að þær verði lækkaðar verulega.
Magnús Orri Schram, sem situr í efnahags- og skattanefnd, mælti fyrir frumvarpinu í dag en öll nefndin stendur að málinu. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði hins vegar að frumvarpið bryti gegn stjórnarskránni, sem kveði á um að óheimilt sé að lækka laun forseta Íslands. Svipuð sjónarmið komu fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokks.
Þingmefndin mun taka málið til skoðunar fyrir aðra umræðu á þinginu.