Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra hefur starfað í 100 daga. Á 100 daga áætluninni eru 48 mál og hafa 42 þegar verið afgreidd að mestu og flest þeirra sex sem útaf standa verða afgreidd innan tíðar, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Meðal málanna sem afgreidd hafa verið er samningur um lán til styrkingar gjaldeyrisforðanum við Norðurlandaþjóðirnar og viðræður við Rússland og Pólland eru á lokastigi.
Af 100 daga áætluninni hefur ekki verið gengið frá afgreiðslu stjórnar AGS á annarri endurskoðun áætlunar stjórnvalda og sjóðsins (fer fyrir stjórn sjóðsins á næstu vikum, Íslendingar hafa staðið við sinn hluta samkomulagsins en afgreiðsla strandar á Icesave-samningunum).
Dregið úr gjaldeyrishöftum (áætlun um afnám hafta í áföngum hefur verið afgreidd í ríkisstjórn).
Samningar til lausnar vegna eigenda krónubréfa (ákveðið að fara aðrar leiðir til samræmis við áætlun um afnám gjaldeyrishafta).
Endurfjármögnun og endurskipulagning sparisjóða (Vinnan í fullum gangi og mun ljúka á næstu vikum).
Frumvarp um bætt umhverfi sprota og nýsköpunarfyrirtækja lagt fram á Alþingi (Tvö samhliða frumvörp bíða haustþings, annars vegar sérlög um skattaívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og aukinna framlaga til rannsókna og þróunar og hins vegar breytingar á tekjuskattslögum).
Stöður bankastjóra ríkisbankanna auglýstar lausar til umsóknar (aðeins verður um eina stöðu að ræða, ef að líkum lætur og hún auglýst um leið og endurfjármögnun Landsbanka er í höfn), að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.