Sex dauðar ær fundust nýverið í Seljadal inn af Mosfellsdal. Þeirra hafði verið saknað í um þrjár vikur og var því ákveðið að leita þeirra. „Allar eru ærnar sundurtættar eftir hunda og við finnum ekki lömbin,“ segir Hreinn Ólafsson, bóndi á Helgadal í Mosfellsdalnum og einn þriggja eigenda ánna.
Segir hann um 10-12 lömb, sem fylgt hafi ánum, vera horfin. „Við vitum í raun ekki fyrr en við förum að smala í haust hvort þessi lömb séu enn á lífi eða hvort einhver hafi tekið þau sér til matar,“ segir Hreinn.
Að sögn Hreins hefur málið þegar verið kært til lögreglunnar, enda missirinn mikill. Bendir hann á að allar séu kindurnar merktar með númeri og því ætti að vera hægt að finna lömbin.