Guðbrandur Einarsson, oddviti minnihlutans í Reykjanesbæ, hefur áhyggjur af því að einkaaðilar kunni að öðlast yfirráð yfir atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu. Bærinn hefur framselt afnot af auðlindum HS Orku til allt að 130 ára. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.
Þar kom fram að við sölu á hlut Reykjanesbæjar í HS Orku til Geysis Green Energy í síðasta mánuði hafi bærinn framselt afnotarétt á auðlindum HS Orku í Svartsengi og Höfnum. Framsalið gildir í 65 ár og eiga eigendur HS Orku rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.
Fari svo að Orkuveitan selji kanadíska orkufyrirtækinu Magma Energy þriðjungshlutinn í HS Orku verður fyrirtækið nánast að fullu í eigu einkaaðila. Guðbrandur Einarsson, oddviti minnihlutans í Reykjanesbæ, hefur áhyggjur af þessu.