Íslendingar hætta í NASCO

Einar Falur Ingólfsson

Íslendingar hafa dregið sig út úr Norður-Atlantshafs laxverndunarstofnuninni eða NASCO (North Atlantic Salmon Conservation Organization) í sparnaðarskyni. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram að úrsögnin taki gildi um áramótin. Hugsanlegt er að Íslendingar gangi á ný í samtökin þegar betur árar. 

Á vef norska miðilsins ABC Nyheter  kemur fram að Íslendingar hafi dregið sig út úr samtökunum í lok júní sl. og að úrsögnin taki gildi í lok þessa árs. Þar með missi samtökin eitt mikilvægasta aðildarland sitt. Alls eru sex aðildarlönd auk Íslands, en þau eru Kanada, Danmörk (fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Evrópusambandið, Noregur, Rússland og Bandaríkin. 

Blaðamaður ABC Nyheter leitaði skýringa á úrsögninni hjá Ingimari Jóhannssyni, skrifstofustjóra hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, og sagði hann ástæðuna bágur fjárhagur landsins. Aðspurður segir hann engra breytinga að vænta í afstöðu Íslendinga gagnvart laxveiðum eða verndun laxa. Segir hann málið einfaldlega snúast um það að ríkið geti ekki séð af þeim 20 milljónum íslenskra króna sem aðildin að samtökunum kosti á ári. 

NASCO var stofnað árið 1984 en skrifað var undir stofnsáttmála samtakanna árið 1982 í Reykjavík. Höfuðstöðvar NASCO eru í Edinborg í Skotlandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert