Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði við breska ríkisútvarpið BBC í dag, að það hefði verið of seint á síðasta ári að bregðast við þeim erfiðleikum, sem steðjuðu að bankakerfinu. Hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir bankahrunið ef gripið hefði verið til aðgerða nokkrum árum fyrr til að takmarka vöxt bankanna.
Geir var gestaritstjóri í útvarpsþættinum Europe Today, sem breska ríkisútvarpið BBC sendi út í dag. Geir sagði við þáttastjórnandann, að vikurnar eftir bankahrunið hefðu verið þær erfiðustu, sem hann hefði upplifað í starfi. Hann hefði verið staðráðinn í að reyna að leysa þau vandamál, sem steðjuðu að landinu en þróun mála hefði orðið önnur og nú væri komin önnur ríkisstjórn á Íslandi. Hann væri sjálfur ekki lengur þingmaður.
Sem gestaritstjóri ákvað Geir að láta vinna fréttir um áhrif fjármálakreppunnar á tvö lítil aðildarríki Evrópusambandsins: Írland og Lettland. Geir sagði, að hægt væri að draga mikinn lærdóm af því sem gerðist, bæði í litlum ríkjum og stórum.
Geir var spurður hvernig hann hefði náð að slaka á meðan öll spjót stóðu á honum. Hann sagðist m.a. hafa hlustað á íslenska tónlist og spilaði m.a. sýnishorn af söng Garðars Thórs Cortes og Bjarkar. Þá sagðist hann mæla með íslenskum glæpasagnahöfundum en bækur þeirra hefðu margar verið þýddar á ensku.