Samið hefur verið við sextíu fyrirtæki um tæplega 140 störf frá því verkefnið Starfsorka, sem er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Impru – Nýsköpunarmiðstöðvar, fór af stað í ársbyrjun. Verkefnið er eitt þeirra úrræða sem stendur fólki til boða til að bregðast við auknu atvinnuleysi.
Impra leggur mat á framgang verkefna að baki samningunum og standa vonir til þess að einhver þessara starfa leiði til ótímabundinna ráðninga, að því er fram kemur á vef félagsmálaráðuneytisins.
Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við atvinnuleitendur um að þeir vinni í allt að sex mánuði að þróun eigin viðskiptahugmyndar en fái samtímis greiddar atvinnuleysisbætur. Markmið þessa er að liðsinna fólki við að skapa sér starf til framtíðar. Í júní hafði Vinnumálastofnun gert átta samninga af þessu tagi.
Samstarf Vinnumálastofnunar og Impru – Nýsköpunarmiðstöðvar mun halda áfram með það að markmiði að skapa fleiri atvinnutækifæri á vinnumarkaði.