Lögreglan í Vestmannaeyjum fann 27 grömm af kannabisefni á manni, sem kom með slöngubáti til Eyja frá Bakkafjöru. Um var að ræða einn þeirra, sem lenti í hrakningum í Bakkafjöru þegar vél bátsins bilaði og sagt var frá í fréttum í vikunni.
Maðurinn viðurkenndi að eiga fíkniefnin og sagði þau til eigin neyslu.
Maður var handtekinn í síðustu viku, grunaður um að hafa brotist inn í veitingastaðinn Kaffi Maríu. Maðurinn var handtekinn þar nærri en vitni hafði séð til manns þar inni. Áfengisflöskur frá veitingarstaðum fundust í nærliggjandi húsagarði. Hann var færður í fangageymslu en við yfirheyrslu neitaði hann allri aðild að málinu. Málið er í rannsókn.
Aðfaranótt laugardags var tilkynnt að fjórir piltar hefðu farið inn í
sundlaugargarð við íþróttamiðstöðina og baðað sig í heitu pottunum. Piltarnir voru yfirheyrðir og foreldrum þeirra tilkynnt um málið.