Fyrirtækið Vélaver lagði inn beiðni um gjaldþrot í dag. Stofna á nýtt félag á grunni þess gamla. Þorri þeirra 20 starfsmanna sem sagt hefur verið upp verður endurráðinn.
Vélaver hefur flutt inn landbúnaðarvélar, vinnuvélar og atvinnubíla auk þess sem það hefur verið með varahluta- og verkstæðisrekstur.
Hrun hefur verið í sölu atvinnutækja vegna kreppunnar og hefur sala þeirra minnkað um um það bil 90 prósent. Starfsmönnum hefur fækkað jafnt og þétt frá því í fyrrasumar en þeir voru flestir um 60.