Ekki er öruggt að hollenskir sparifjáreigendur fái allt endurgreitt sem þeir áttu inni á Icesave-reikningum Landsbankans í Hollandi og endurgreiðslurnar geta tafist. Þetta er meðal þess sem fram kemur á vef hollenska dagblaðsins Volkskrant í dag. Þar er fjallað um afgreiðslu fjárlaganefndar á fyrirvörum við Icesave-samkomulagið.
Alls töpuðu 144 þúsund Hollendingar sparifé sínu er Landsbankinn fór í þrot. Hollensk stjórnvöld hafi tryggt fjármuni þeirra að mestu en samkomulag hafi verið gert um Icesave milli íslenskra stjórnvalda og hollenskra annars vegar og íslenskra stjórnvalda og breskra hins vegar. Mikil andstaða sé meðal Íslendinga við samkomulagið og að hinn almenni Íslendingur þurfi að greiða fyrir eitthvað sem hann ber enga ábyrgð á.
Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, vildi ekki tjá sig um málið við Volkskrant að svo stöddu eða ekki fyrr en málið hefur verið afgreitt á Alþingi. Hann segist þó líta svo á að samskiptin við Ísland séu vinsamleg. Enda hefur verið haft eftir honum áður að hann líti á lánið sem vinargreiða við Ísland.