Áætlað er að nú vanti um 100 starfsmenn til starfa á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Vel hefur þó gengið að ráða starfsmenn til starfa á frístundaheimilin í Reykjavík síðustu daga, að sögn Ómars Einarssonar, sviðstjóra hjá ÍTR.
Fyrr í dag var haldinn fundur með forstöðumönnum Frístundamiðstöðva og stjórnendum hjá ÍTR þar sem farið var yfir stöðu umsókna um vistun á frístundaheimilum og starfsmannamál.
Nú hefur verið sótt um vistun fyrir 2.745 börn á haustönn á frístundaheimilum við grunnskólana og hefur umsóknum fjölgað um 150 síðustu daga. Unnið er að ráðningum í þau störf þar sem enn vantar starfsmenn.
Þegar er búið að ráða 122 starfsmenn til starfa á frístundaheimili til viðbótar þeim 100 sem eru með heilsársráðningar. Alls hafa því verið ráðnir 222 starfsmenn til starfa á almennum frístundaheimilum.
Ómar segir fjölda umsókna um störf hafa borist síðustu daga og er unnið að yfirferð þeirra umsókna.
Nánari upplýsingar munu liggja fyrir e.h. föstudaginn 21. ágúst nk.