Afgreitt í vikunni?

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra á fund …
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra á fund með blaðamönnum mbl.is/Kristinn

Umræða um Icesave-frumvarpið, með fyrirvörum fjárlaganefndar, á að hefjast á morgun. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vonast til að hægt verði að afgreiða málið fyrir vikulok, þegar stefnt er að því að þinginu ljúki. „Þegar Icesave-samningurinn verður samþykktur á Alþingi verður fljótlega unnið að afgreiðslu láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þegar þessi mál eru í höfn erum við að stíga yfir stóran þröskuld sem hefur verið í vegi fyrir endurreisninni,“ sagði Jóhanna að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að gengið sé út frá því að lánin frá Norðurlöndunum komist einnig á skrið þegar Alþingi hafi afgreitt Icesave-málið, þrátt fyrir að frumvarpið sé breytt frá því sem lagt var upp með til að byrja með. Það hefur þó ekki verið rætt sérstaklega við fulltrúa Norðurlandanna sem hafa gefið vilyrði fyrir lánunum.

„Við göngum út frá því að þá sé bara eftir tæknilegur frágangur og úrvinnsla og bindum vonir við að endurskoðun geti farið fram um leið og hún kemst á dagskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“ Starfsmenn AGS koma úr fríi 24. ágúst og segir Steingrímur því miður tæplega raunhæft að afgreiðslan fari fram fyrr en í september.

Ekki nýjar samningaviðræður

Jóhanna segir að á þessu stigi hafi farið fram óformlegar viðræður við Breta og Hollendinga um þetta mál og hafa embættismenn gert fulltrúum þeirra grein fyrir því. Þegar málinu lýkur á þingi muni þó væntanlega fara fram formlegar viðræður við þessa aðila.

„Þar er ég ekki að tala um nýjar samningaviðræður heldur munum við fyrst og fremst ræða stöðuna eftir að Alþingi hefur afgreitt málið.“ Jóhanna segir engin formleg viðbrögð hafa borist frá Bretum eða Hollendingum vegna þróunar Icesave-málsins á Alþingi, og hún kveðst ekki hafa trú á því að gagntilboð berist frá þeim. Fyrirvararnir séu fyrst og fremst öryggisákvæði sem ættu ekki að kalla á gagntilboð eða nýjar samningaviðræður.

Steingrímur kveðst telja það til eftirbreytni hversu varkárir Bretar og Hollendingar hafi verið í sínum viðbrögðum. „Þeir vilja fyrst sjá endanlega niðurstöðu í málinu og fá tíma til að kynna sér hana. Það ætti að gilda um okkur líka, við ættum að vera spör á stórar yfirlýsingar og svo einfaldlega láta á það reyna hvort með útskýringu og kynningu á þessari niðurstöðu er ekki hægt að tryggja að þetta verði efniviður í farsæla lausn. Það er okkur öllum fyrir bestu að við fáum lyktir í þetta mál, að það hætti að tefja framgang annarra mála. Því tel ég það mikilvægt að halda þannig á umræðunni um þetta, að við gefum okkur ekki fyrirfram einhverja niðurstöðu. Aðalatriðið er að málið verði ekki óleyst, að einhver farsæl niðurstaða fáist.“

Langt í endurreisn trausts

Þótt lausn á Icesave-deilunni kunni að vera í sjónmáli á endurreisn trúverðugleika Íslands enn langt í land. Jóhanna Sigurðardóttir segir að það megi sjá af niðurstöðu könnunar bresku lögmannsstofunnar Norton Rose, þ.e. um að yfir 90% evrópskra fjármálastofnana sem töpuðu fé á viðskiptum við íslensku bankana segi ólíklegt að fjárfest verði á ný á Íslandi. Önnur niðurstaða þessarar könnunar var að yfir 90% þátttakenda íhuguðu málsókn gegn íslenska ríkinu.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segist ekki telja þetta vera rétta túlkun á niðurstöðunum, heldur hafi þessi stóri hluti svarað því til að hann hefði getað hugsað sér að höfða mál vegna einhverra atriða. „Ég túlka það ekki svo að 90% muni fara í mál. Við höfum náð árangri á sumum sviðum og ég held að þeir samningar sem hafa náðst um skiptinguna milli gömlu og nýju bankanna séu mikilvægur liður í því að leysa málið með sátt frekar en með málaferlum.“

Viðræðuáætlun ætlaður tími fram í september

Steingrímur segir ekki hafa komið á óvart að kröfuhafar hafi íhugað málsókn. Hins vegar hafi viðbrögð þeirra orðið jákvæðari þegar dró til tíðinda í endurskipulagningu bankanna í sumar. „Nú liggur samkomulag við tvo af þremur bönkum fyrir, þ.e. uppgjörið milli gamla og nýja Kaupþings og Glitnis og Íslandsbanka. Þessir tveir bankar voru endurfjármagnaðir á föstudaginn var með framlagi frá ríkinu. Viðræðuáætlun um Landsbankann er aftur komin af stað og henni er ætlaður tími fram í september.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert