Annarra að biðjast afsökunar

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings. Kristinn Ingvarsson

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, bað hluthafa, kröfuhafa og starfsfólk Kaupþings afsökunar á launastefnu bankans í viðtali við Kastljós í kvöld. Aðspurður hvort honum þætti ekki rétt að biðja þjóðina afsökunar sagði hann ekki krónu falla á íslensku þjóðina vegna Kaupþings og því væri það hlutverk annarra að biðja þjóðina afsökunar.

Hann segir áreiðanlegt að mistök hafi verið gerð hjá Kaupþingi.

„Við hefðum átt að undirbúa okkur betur og ég held að stærstu mistökin hafi verið að færa ekki höfuðstöðvar bankans þegar hann var orðinn svona stór. Við gerðum líka mistök í uppbyggingu launakerfisins okkar starfsmanna. Við áttum ekki að láta starfsfólk okkar taka svona mikla áhættu og lána þeim svona mikla fjármuni til að kaupa hlutafé í bankanum. Ég sé mjög mikið eftir þeim mistökum.“

Hreiðar Már segir að það sé ekki svo einfalt að hópur tuttugu kapítalista hafi komið Íslandi á hausinn. Miklu fleiri samverkandi þættir hafi leitt til þessa ástands sem nú er. Þá segir hann að alls staðar í öðrum löndum, svo sem Svíþjóð og Lúxemborg, þar sem Kaupþing naut eðlilegrar fyrirgreiðslu frá Seðlabanka sé ekkert tjón af starfsemi bankans.

Hann kveðst vel geta skilið að fólk sé reitt. Í viðtalinu segir hann ljóst að nauðsynlegt sé að bregðast við vanda skuldara, bæði fólks og fyrirtækja. Ekki sé nóg að hlaupa bara undir bagga með fjármagnseigendum. Það séu til leiðir til að bregðast við þessum vanda.

Spurður um hvort auðmenn ætti ekki að koma með fé sitt til landsins vegna skuldavanda þjóðarinnar, svarar Hreiðar að hann sé ekki auðmaður. Hann hafi tapað megninu af sínum sparnaði með hruninu, sér í lagi með því hlutafé sem hann átti í Kaupþingi.

Hreiðar segist halda að helsti veikleiki íslensku bankanna hafa verið samþjöppun í eignahlið þeirra, hjá bönkunum voru fáir, stórir lántakendur.

Viðtalið má sjá hér. Þar er einnig fjallað um margrædda lánabók Kaupþings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert