Icesave rætt á fimmtudag

Alþingi
Alþingi mbl.is/Ómar

Umræða um frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-innstæðna hefst að morgni fimmtudags klukkan níu. Um þetta varð sammæli á fundi formanna allra þingflokka með Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, í gærkvöldi.

„Menn eru tilbúnir til að vera ekki með langa umræðu,“ segir Ásta Ragnheiður og kveður alla formennina hafa orðið ásátta um það, líka fulltrúa Framsóknarflokks, en flokkurinn samþykkti ekki afgreiðslu málsins úr fjárlaganefnd. Þingforseti vonar að málið fari greiðlega gegnum þingið. Hún býst við að málið verði útrætt fyrir helgi og í síðasta lagi á mánudag en tekur fram að ekki sé hægt að slá því föstu. „Það var ekki alveg settur endapunktur á þetta, við ætlum að meta það þegar umræðan er hafin.“

Nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar verður útbýtt til þingmanna á morgun en ekki er von á minnihlutaáliti Framsóknar fyrr en á fimmtudag. Ásta Ragnheiður segir unnið baki brotnu að því að hægt verði að taka málið fyrir.

Fá önnur mál á dagskrá

„Það eru nánast engin mál eftir, það eru tvö, þrjú mál sem á bara eftir að ljúka þriðju umræðu um. Við munum klára þau mál sem samkomulag er um,“ segir Ásta Ragnheiður. Hún segist bera þá von í brjósti að þinglok verði þegar Icesave-málið verði afgreitt, um eða eftir helgi.

Haustþing verður sett 1. október en ákveðið hefur verið að ekki verði þingað í september.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert