Mikið tjón fyrir lítið fyrirtæki

Björn Lárus Örvar
Björn Lárus Örvar mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Tjónið nemur nokkrum milljónum sem er tilfinnanlegt fyrir okkur sem erum lítið fyrirtæki og berjumst í nýsköpun við erfiðar aðstæður,“ segir Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni en skemmdarverk voru unnin í nótt eða morgun í tilraunareit fyrirtækisins á erfðabreyttu byggi. 

„Þetta var lítill tilraunareitur í sumar, ekki nema 40 fermetrar, en við höfum lagt mikla vinnu í undirbúning og verðmætur efniviður fór forgörðum,“ segir Björn. Allt bygg í reitnum hefur verið eyðilagt en ekki er ljóst hverjir standa að skemmdarverkunum.

Björn segir skemmdirnar ekki hafa bein áhrif á rekstur fyrirtækisins í dag en skemmdarverkin sem slík setji spurningarmerki við slíkar rannsóknir hér á landi. „Við vitum að þetta er það sem öfgahópar hafa verið að gera í Bretlandi þar sem ráðist hefur verið gegn háskólastofnunum og öðrum stofnunum á þessu sviði. En við vonuðumst til að slíkt gerðist ekki á Íslandi enda er þetta fimmta sumarið sem við stöndum í slíkri ræktun,“ segir Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert