Siðferðileg álitaefni Icesave

Í áliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um Icesave-frumvarpið, sem dreift var í kvöld, segir að siðferðileg álitaefni hafi verið mjög áberandi í umfjöllun nefndarinnar. Sú ágenga spurning voki yfir allri Icesave-deilunni hvort menn eigi að borga skuldir sem þeir hafi ekki stofnað til. 

„Spurningin verður jafnvel enn ágengari þegar í ljós kemur að athafnamenn geta, í skjóli frjáls hagkerfis, hirt arðinn af starfsemi sinni en skilið skuldirnar eftir hjá almenningi ef illa fer. Sér er nú hver áhættan, segir almenningur sem vitnar til góðra gilda og almennra mannasiða í viðskiptum forfeðra sinna þar sem handsalið gilti og orðin stóðu," segir í nefndarálitinu.

Veltu afleiðingunum á breið bök almennings

Þá segir að Icesave-deilan dragi á strigann þá liti sem helst skera í augun vegna bankahrunsins: óbeislaða markaðshyggju sem fær næsta eftirlitslítið að leika lausum hala.

„Hún afhjúpar nýjar og óvenjulegar viðskiptavenjur sem í skjóli bankaleyndar var aldrei ætlað að koma fyrir augu almennings, hinna raunverulegu ábyrgðaraðila sem þó höfðu ekki minnstu hugmynd um að þeir væru ábekingar hins frjálsa hagkerfis. Í þessari mynd blasir það einnig við að bankastjórar, sem fengu ofurlaun og óskiljanlega háa kauprétti fyrir að bera hina miklu samfélagslegu ábyrgð, gátu þegar upp var staðið velt afleiðingum gjörða sinna yfir á hin raunverulegu breiðu bök sem alltaf hafa haldið uppi samfélaginu, almenning í landinu. Hér er kominn kjarni Icesave-deilunnar á Íslandi: bera menn ekki ábyrgð á gjörðum sínum, eða er ekki einmitt svo þegar bankarnir sjálfir krefja almenning um ábyrgðir og ábyrgðarmenn – og hver er miskunnin í frjálsum viðskiptum? Hér verður löggjafinn að staldra við," segir í álitinu.

Hætta á einangrun

Í nefndarálitinu er einnig fjallað um pólitísk álitamál tengd Icesave-málinu og m.a. vísað til álits meirihluta utanríkismálanefndar þar sem segir, að brýnt sé að leysa málið nú því hætt sé við að alþjóðlegri einangrun Íslands linni mun síðar ef samningar nást ekki.


Álit meirihluta fjárlaganefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert