Halli af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur á fyrri hluta ársins nam 10,6 milljörðum króna. Segir fyrirtækið, að það ráðist að mestu af 7% veikingu íslensku krónunnar frá áramótum. Á sama tímabili 2008 varð halli að fjárhæð 16,4 milljarðar króna af rekstrinum.
Í tilkynningu OR segir, að þrátt fyrir umrót á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum sé reksturinn traustur. Áfram sé unnið að stækkun Hellisheiðarvirkjunar á árinu 2009 og áformað að taka síðasta áfanga raforkuframleiðslu hennar í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2011. Uppbygging annarra virkjana muni taka mið af aðgengi fyrirtækisins að lánsfé til fjárfestinga og þeim lánskjörum sem í boði verða.
Þá segir, að vaxandi tekjur fyrirtækisins í erlendri mynt geri því kleift að standa undir greiðslum af erlendum lántökum þrátt fyrir miklar gengissveiflur.
Rekstrartekjur tímabilsins námu 11.925 milljónum króna en voru 11.369 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður. Hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, var 5692 milljónir króna samanborið við 5816 milljónir króna á sama tímabili árið áður.
Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 14.132 milljónir króna á tímabilinu, en voru neikvæðir um 22.187 milljónir króna á sama tímabili árið 2008. Heildareignir þann 30. júní 2009 voru 264.438 milljónir króna en voru 259.373 milljónir króna 31. desember 2008. Eigið fé þann 30. júní 2009 var 37.344 milljónir króna en var 48.359 milljónir króna 31. desember 2008.
Heildarskuldir fyrirtækisins þann 30. júní 2009 voru 227.094 milljónir króna samanborið við 211.015 milljónir króna í árslok 2008. Eiginfjárhlutfall var 14,1% þann 30. júní 2009 en var 18,6% í árslok 2008.