„Með breytingartillögum fjárlaganefndar, er í reynd verið að gera einskonar viðbót við samningana,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, við umræður um Icesave-frumvarpið á Alþingi í dag. Bjarni sagði að með breytingunum væri búið að kollvarpa málinu.
Bjarni sagði að verði frumvarpið samþykkt á þinginu, þá verði ríkisábyrgðin hluti af Icesave-samningnum og því sé þingið nánast komið í það hlutverk að hafa einhliða áhrif á samningsniðurstöðuna. „Það er mín sannfæring að ef þetta mál verður klárað með þessum hætti, þá væri lang skynsamlegast að aðilar málsins kæmu sér saman um að endurgera lánasamningana og það stæði síðan ríkisábyrgð einfaldlega að baki þeim,“ sagði Bjarni. Hann sagðist líta á þær breytingar sem nú lægju fyrir sem gagntilboð til Breta og Hollendingar og þeir ættu með réttu að geta fallist á þær.
Þá lýsti Bjarni þeirri skoðun sinni að fjárlaganefnd eigi að ræða nánar efnahagslegu viðmiðin sem kveðið er á um í fyrirvörunum.
Þingumræðan hefur staðið yfir frá kl. 9 í morgun og er gert ráð fyrir að hún standi fram á kvöld.