„Við köstuðum á milli okkar hugmyndum og ákváðum að hittast á ný í næstu viku og skoða stöðuna,“ segir Ársæll Ársælsson, formaður Tollvarðafélags Íslands eftir fund með samninganefnd ríkisins.
Samninganefnd Tollvarðafélags Íslands þingaði í dag með samninganefnd ríkisins en tollverðir felldu í liðinni viku nýgerðan kjarasamning við ríkið. Nei sögðu 54,17% en já sögðu 41.67%.
Formaður Tollvarðafélagsins segir að kurr sé í tollvörðum vegna yfirvinnubanns og annarra skerðinga sem bitni misjafnlega á félagsmönnum eftir starfsstöð en dæmi séu um allt að 30% kjaraskerðingu í röðum tollvarða. Tollverðir hafa lagt fram ákveðnar hugmyndir á fundinum i dag að leiðréttingu kjara.
„Samninganefnd ríkisins skoðar þær hugmyndir fram í næstu viku. En við vöktum líka athygli á að verið er að leggja auknar álögur á ýmsan varning við innflutning og það kostar aukið eftirlit og mannafla að innheimta þessar auknu álögur. Um leið og álögur eru auknar, þá freistast fleiri til að reyna að koma sér undan greiðslu lögboðinna gjalda. Það er ekki eingöngu verið að eiga við þá sem smygla fíkniefnum og áfengi heldur færist í vöxt hér, líkt og annars staðar, tvöfalt bókhald við innflutning. Það fjölgar tilfellum þar sem sá reikningur sem framvísað er við tollafgreiðslu sýnir lægra innkaupsverð en raunverulega er greitt fyrir vöru. Eitt slíkt tilvik getur hlaupið á stórum fjárhæðum fyrir ríkissjóð og því til nokkurs að vinna fyrir ríkið að ná í þessar tekjur. En það kostar peninga að ná í þessa fjármuni,“ segir Ársæll Ársælsson, formaður Tollvarðafélags Íslands.