Láta innbyrðis deilur eiga sig

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, á …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, á fundinum í morgun. mbl.is/Ómar

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, var á blaðamannafundi með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í morgun spurður um þögn bandalagsins um beitingu Breta á hryðjuverkalögum. Svaraði hann að bandalagið hefði ekki afskipti af innbyrðis deilum aðildarríkjanna.

 Ráðamennirnir tveir munu hafa farið ítarlega yfir Icesave-deiluna og deilur Íslendinga við Breta á fundi sínum fyrir blaðamannafundinn.  Fogh Rasmussen var mjög varkár er blaðamenn spurðu hann um deilurnar.

  ,,Ég tel ekki að það sé hlutverk NATO að skipta sér af tvíhliða efnahagssamningum milli aðildarríkjanna. Að sjálfsögðu hef ég miklar áhyggjur af því að pólitísk spenna geti orðið milli bandalagsþjóðanna en ég hef ekki hugsað mér að grípa inn sem framkvæmdastjóri NATO.  'Eg er sannfærður um að Ísland, Bretland og Holland muni finna friðsamlega lausn á deilunum sem hafa komið upp í kjölfar efnahagsvandans."

Fogh Rasmussen var spurður um fyrirhugaða sameiningu Varnarmálastofnunar og Landhelgisgæslunnar, einnig hvort þörf væri áfram á ratsjárstöðvum NATO hér á landi. Hann sagðist ekki myndu tjá sig um skipulag Íslendinga á sviði varnarmála landsins, það væri þeirra mál. Um ratsjárstöðvarnar sagði hann að þörf væri fyrir þær vegna varna Íslands og því væru þær nauðsynlegar fyrir bandalagið í heild.

 Um kosningarnar í Afganistan sagði framkvæmdastjórinn að samkvæmt þeim fréttum sem hann hefði fengið væri tiltölulega lítið um ofbeldi á kjördag og landsmenn virtust mæta á kjörstaði. NATO og bandalagsríki þess yrðu að efla viðveru sína í landinu og mikilvægt væri að koma upp þjálfunarstöðvum fyrir her Afganistans til að hann yrði hæfari til að takast á við Talíabna.

 Útilokað væri að vestræn ríki létu Talíbana ná aftur völdum í landinu og leyfa þeim að gera Afganistan að hæli fyrir al-Qaeda.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert